Kennsla og kennsluhættir
Kennsluhættir Djúpavogsskóla taka mið af skólastefnu sveitarfélagsins, skólanámskrá skólans, starfsáætlun og rannsóknum sem sýna fram á faglega kennsluhætti út frá gagnreyndum aðferðum.
Má þar t.d. nefna Byrjendalæsi sem innleitt var í skólastarfið 2014. Skólaárið 2019-2020 hófst innleiðing teymiskennslu sem byggir á áralangri hefð samkennslu árganga í skólanum.
Byrjendalæsi
Byrjendalæsi (BL) er kennsluaðferð í læsi sem Miðstöð skólaþróunar við Háskólann hefur þróað í samvinnu við skóla víðsvegar um landið frá árinu 2004. Höfundur aðferðarinnar og forystumaður um innleiðingu hennar er Rósa Eggertsdóttir. Byrjendalæsi er formlega gefið út fyrir 1.-2. bekk en hægt er með góðu móti að nýta aðferðina alveg upp í 5. bekk. Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð þar sem bæði eru notaðar heildaraðferðir og eindaraðferð (hljóðaaðferð) og byggist hún á aðferðum sem rannsóknir hafa leitt í ljós að skili árangri í læsisnámi barna. Unnið er með allar þætti íslensks máls; lestur – hlustun – ritun – tal. Mikilvægt er að gera öllum þessum þáttum jafnhátt undir höfði með fjölbreyttri nálgun á viðfangsefnum ásamt fjölbreyttu námsmati. Djúpavogsskóli var samferða fjölmörgum öðrum skólum á Austurlandi í innleiðingu BL árið 2014 og lauk innleiðingu tveimur árum seinna. Djúpavogsskóli leggur mikla áherslu á að viðhalda kennsluaðferðum BL og er því með leiðtoga í BL við skólann sem stýrir menntun nýrra kennara og endurmenntun þeirra sem lokið hafa 2ja ára BL-námi.
Teymisvinna
Djúpavogsskóli hóf innleiðingu á teymisvinnu haustið 2019. Teymisvinna er nú orðið algengt skipulag innra starfs í grunnskólum þar sem samstarf og samábyrgð er talin er styrkasta stoð skólaþróunar. Teymisvinna í Djúpavogsskóla felst ekki aðeins í því að teymi vini saman að bættum námsárangri og líðan nemenda, heldur er teymiskennsla einnig í þróun við skólann þar sem kennarar kenna saman einum nemendahópi og skuldbinda sig til samvinnu og samábyrgðar á námi og kennslu, líðan nemenda, daglegum samskiptum og samstarfi. Með þessu móti er hægt að þróa kennsluhætti í átt að einstaklingsmiðuðu námi því hún býður upp á aukinn sveigjanleika í kennslunni.
Teymisvinna dregr úr einangrun kennara og teymisfélagar græða bæði faglega og hugmyndalega á vinnunni.
Helstu ókostir teymiskennslu eru fleiri fundir, flóknara skipulag og erfiðara er að bregðast við áhugaverðum aðstæðum.
En hvað þýðir teymisvinna fyrir nemendur?
-
Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum
-
Hægt að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda
-
Fleiri kennarar á svæðinu til að aðstoða nemendur
-
Aðstæðum sem koma upp á er hægt að sinna strax, nemendur síður skildir eftir einir.
-
Félags- tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann
-
Nemendur tengjast fleiri kennurum, hafa fleiri til að leita til með ráðleggingar og aðstoð
-
Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna.
-
Öryggið er fyrir hendi þótt einn kennara vanti
-
Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
-
Námsmat sanngjarnara þar sem fleiri koma að því - betur sjá augu en auga
-
Fjölbreyttari félagahópur og getur leitt til meiri samheldni innan nemendahópsins
En hvað þýðir hún fyrir kennara?
-
Meira samstarf, skemmtilegra í vinnunni, minni einangrun
-
Samvinna og stuðningur, ekki síst við erfið samskipti og agamál
-
Kennarar fá mikinn stuðning frá hverjum örðum við markmiðsgerð og val aðferða og leiða
-
Kennarar geta nýtt mismunandi hæfileika sína eftir því sem við á
-
Meiri líkur á fjölbreyttari vinnubrögðum og aðferðum
-
Vinnuhagræðing / verkaskipting / álagið dreifist
-
Hægt er að bregðast strax við aðstæðum sem koma upp
-
Fjölbreyttari sýn á nemendur
-
Námsmat samræmdara
-
Kennarar læra hver af öðrum
-
Unnið eftir námsáætlun eins og hægt er þó einn kennara vanti
-
Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
( https://www.hraunvallaskoli.is/skolinn/aherslur-i-skolastarfi/teymiskennsla/ )
Leiðsagnarnám
Leiðsagnarnám (e. Formative assessment)
Haustið 2022 verður innleiðing Leiðsagnarnáms (LSN) ein af megin áherslum í skólastarfi Djúpavogsskóla. Allir grunnskólar í Múlaþingi vinna að innleiðingu LSN í samstarfi við Menntavísindasvið Háskólans á Akureyri (MSHA)
Með Leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að efla og þróa jákvæða og uppbyggjandi námsmenningu í skólanum þar sem unnið er með að valdefla nemendur á þann hátt að nemendur viti hver staða þeirra er í eigin námi, hver séu námsmarkmið þeirra og fái leiðsögn til að brúa bilið þar á milli.