top of page
logó.JPG
Móttaka nemenda með annað móðurmál

Hér á eftir fer listi yfir það sem gert er í Djúpavogsskóla þegar tekið er á móti nýjum nemendum sem hafa íslensku sem annað tungumál og hafa ekki áður stundað nám í íslenskum grunnskóla.

 

Þegar sótt er um skólavist:

  • Foreldrar fá afhent innritunareyðublað sem þeir fylla út í skólanum eða heima.

  • Ákveðinn er tími fyrir móttökuviðtal þar sem foreldrar, nemendur, umsjónarkennari og umsjónarmaður sérkennslu og/eða skólastjóri, mæta ásamt túlki ef þörf krefur.

  • Skólastjóri eða umsjónarmaður sérkennslu sér um að panta túlk.

  • Foreldrar eru beðnir að hafa með sér heilsufarsupplýsingar og einkunnir frá fyrri skóla og kennitölu ef hún er komin.

 

Undirbúningur starfsfólks:

  • Starfsfólki skólans er tilkynnt um komu nemandans.

  • Umsjónarkennari undirbýr bekkinn fyrir komu nemandans og velur nemendur úr bekknum til að vera mótttökuvinir nýja nemandans (gott að hafa tvo nemendur).

 

Undirbúningur viðtals:

  • Skólastjóri eða umsjónarmaður sérkennslu safnar saman gögnum sem á að nota í viðtalinu, s.s. spurningalistum, skólareglum, skóladagatali, stundatöflu, skráningar í mötuneyti, viðveru, mjólk og jafnvel Neistatíma. Gott er að nýta starfsáætlun skólans við þessa yfirferð.

  • Hjá yngri nemendum er sniðugt að umsjónarkennari útbúi hefti með nemendum sínum með myndum sem þeir hafa teiknað handa nýja nemandanum. Einnig er gott að hafa bækur blöð og liti fyrir hann meðan foreldrar svara spurningum.

 

Móttökuviðtal:

Viðtalið sitja foreldrar, nemandi, umsjónarkennari, skólastjóri og umsjónarmaður sérkennslu ásamt túlki ef þörf krefur.

  • Í viðtalinu er fylltur út spurningalisti þar sem fram koma nauðsynlegar bakgrunnsupplýsingar.

  • Jafnóðum og eyðublöð eru fyllt út er sagt frá viðveru, mötuneyti og  mjólk í nestistímum. Einnig er farið yfir hvern tíma í stundatöflu, reglur í íþróttahúsi svo sem sturtureglur o.fl., frímínútur, skólareglur, mætingaskyldu, skóladagatalið og alla sérmerkta daga.

  • Heimasíðan kynnt og farið yfir notkun á Mentor. Einnig eru reglur um tilkynningaskyldu kynntar, ef nemandi er veikur, þarf leyfi, vera inni í frímínútum eða horfa á í íþróttum og/eða sundi. Muna þarf eftir að gefa upp símanúmer skólans og afhenda lista með nöfnum á þeim kennurum sem kenna nemandanum.

  • Mynda- og orðalistar eru afhentir ef þurfa þykir.

  • Rætt er um heimanám og mikilvægi þess að foreldrar komi að því þrátt fyrir að skilja ekki málið. Gott er að umsjónarkennari og foreldrar komi sér upp einhverju samskiptakerfi hvað varðar heimanám og önnur samskipti t.d. með myndum eða táknum ef ekki er hægt að nota tungumál.

  • Ef nemandi þarf að nota skólabíl er sagt frá hvenær hann fer og kemur, að það þurfi að tilkynna forföll beint til bílstjóra, almennar skólareglur gilda í bílnum o.s.fr. Einnig þarf að gefa upp símanúmer bílstjóra.

  • Rætt er um mikilvægi þess að nemandinn læri að lesa á sínu eigin tungumáli.

  • Gengið er um skólann og aðrar vistarverur sem tengjast skólanum, eins og smíðastofa, heimilisfræðistofa og íþróttahúsið. Einnig er sagt frá tónlistarskólanum og hann skoðaður ef áhugi er fyrir hendi.

  • Bekkur nemandans er heimsóttur og nemandinn kynntur fyrir bekkjarfélögum sínum og móttökuvinum.

  • Ákveðið er hvenær nemandi byrjar í skólanum.

 

Fyrstu skrefin í skólanum:

  • Mælst er til að a.m.k. annað foreldri eða forráðamaður fylgi barninu í skólann fyrstu dagana óski barnið þess.

  • Meta verður eftir aldri og þroska nemandans hvernig best er að haga aðlögun þess en gott er að fara rólega af stað. Betra er að leyfa nemendanum að koma part úr degi fyrstu 2 – 4 dagana og auka síðan við dvalartímann. Stefnt skal að því að nemandinn mæti fullan dag eftir fyrstu vikuna.

  • Umsjónarkennari skipuleggur aðlögun nemandans að bekknum og skólanum í samráði við skólastjóra og umsjónarmann sérkennslu. Oft getur verið gott að leggja hefðbundna kennslu til hliðar fyrstu dagana og vinna verkefni sem miða að því að koma erlenda nemandanum betur inn í hópinn.

  • Umsjónarmaður sérkennslu skipuleggur tungumálakennslu og aðra sérkennslu í samráði við skólastjóra og umsjónarkennara.

  • Mikilvægt er að hvetja nemandann og ekki síst bekkjar- og skólafélagana að tala íslensku en ekki ensku.

  • Halda skal stöðufund u.þ.b. mánuði eftir að nemandi hefur nám við skólann. Þann fund sækja foreldrar, umsjónarkennari, umsjónarkennari sérkennslu og túlkur ef þurfa þykir. Þá er farið yfir stöðuna, hvernig gangi, hvað þarf að ítreka, hvað vilja foreldrar vita o.s.fr. Ef aðlögun gengur illa skal bregðast strax við og leita aðstoðar sérfræðinga.

 

Upplýsingar sem skólinn veitir foreldrum:

  • Upplýsa þarf foreldra um mikilvægi þeirra í að viðhalda og styðja við málþroska barna og hvetja þá til þess að lesa fyrir börnin sín á móðurmálinu.

  • Upplýsingar um margvísleg praktísk mál er m.a. að finna á efitrfarandi netsíðum.

  • Gott er að safna saman upplýsingum í möppu sem foreldrar fá afhenta t.d. í móttökuviðtali eða á stöðufundi. Þar er hægt að setja orðalista á þeirra tungumáli ef þeir eru til, myndalista, nytsamlegar vefslóðir, nauðsynleg símanúmer o.fl

Nemendur í grunnskóla sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Viðmiðun samkvæmt reglugerð nr. 732/2011 gerir ráð fyrir tveimur kennslustundum á viku í sérstakri kennslu í íslensku á meðan nemandinn er að ná tökum á málinu. Móttaka erlendra nemenda og skipulag á sérstakri íslenskukennslu fellur undir starfssvið verkefnastjóra stoðþjónustu. Málörvun tvítyngdra nemenda og nýrra Íslendinga í íslensku málumhverfi er ennfremur á ábyrgð allra í skólanum.

 

bottom of page