top of page
logó.JPG
Námsmat skólans og vitnisburðarkerfi

Samkvæmt  aðalnámskrá grunnskóla ber að meta árangur og framfarir nemenda.  Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Námsmat á að veita nemendum og foreldrum, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi hvers einasta nemanda.  Námsmat á að stuðla að jákvæðri hvatningu, örva nemendur til framfara og þá verði metið hverjir þurfi á sérstakri aðstoð að halda. Mikilvægt er að matsaðferðir séu fjölbreyttar og fari fram jafnt og þétt yfir skólaárið. 

Skil á námsmati í Djúpavogsskóla

Nemendur og foreldrar fá formleg skil á námsmati tvisvar á skólaárinu. Foreldrum er þó alltaf velkomið að fá upplýsingar um námslega stöðu barna sinna hvenær sem er í samvinnu við umsjónarkennara en slíkar uppýsingar eru einnig aðgengilegar inni á Mentor í gegnum hæfnikort nemenda sem kennarar fylla út jafnóðum og kennslu stendur yfir. 

Að hausti á umsjónarkennari viðtal með nemanda og foreldrum (september). Þar er unnið að markmiðasetningu í samvinnu við nemanda, foreldra og kennara fyrir komandi skólaár.  Í þessu viðtali er einnig fjallað um stuðning við nemandann, farið yfir sérkennslu þar sem það á við og annað sem viðkemur námi og vellíðan barnsins. Þarna gefst nemendum og foreldrum tækifæri til að leggja línurnar að námi nemandans í samstarfi við umsjónarkennara.  Einnig gefst nemendum og foreldrum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, væntingar og langanir í tengslum við námið. 

Á vorönn (janúar) á umsjónarkennari námsmatsviðtal með nemanda og foreldrum. Þar er farið yfir hæfnikort nemanda og getu í einstaka námsgreinum og rætt um hvernig gengur almennt í náminu. 

Við lok skólaárs (skólaslit) fær nemandi vitnisburðarblað þar sem fram kemur staða í einstaka greinum. í 1., 2., 3., 5., 6., 8. og 9. bekk fá nemendur framvindumat á vitnisburðarblaði. Þetta er breyting frá því sem áður hefur verið í Djúpavogsskóla. Framvindumatið er unnið eftir greinanámsskrá skólans.

 

Framvindumatið er eftirfarandi:

  • Góða framvinda: Nemandi sinnir námi sínu vel, fylgir viðmiðum námskrár og sýnir framfarir í námi. Samvinna heimilis og skóla mikilvæg.

  • Hæg framvinda: Nemandi sinnir námi sínu sæmilega, þarf að bæta sig í viðkomandi fagi og sýnir hægar framfarir í námi. Samvinna heimilis og skóla sérstaklega mikilvæg. 

  • Í hættu að ná ekki lágmarshæfni: Nemandi þarf sértæk úrræði til að ná viðmiðum námskrár. Samvinna heimilis og skóla mjög mikilvæg og nauðsynleg.

 

Í 4., 7., og 10. bekk eru nemendur metnir eftir viðmiðum ráðuneytis sem fram koma í aðalnámsskrá og viðaukum við hana. Notaður er kvarðinn A, B+ B, C+,C, D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C.

 

Nemendur fá einnig mat á lykilhæfni á vitnisburðarblaði í lok skólaárs.

Í lykilhæfni er gefið í umsögnunum framúrskarandi, hæfni náð, á góðri leið og þarfnast þjálfunar. 

Lykilhæfnin skiptist í fimm þætti skv. aðalnámskrá grunnskóla.  Þeir eru þessir:

  1. Tjáning og miðlun. Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og  taka þátt í samræðum og rökræðum.

  2. Skapandi og gagnrýnin hugsun. Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu.  Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu.

  3. Sjálfstæði og samvinna. Hæfni til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.

  4. Nýting miðla og upplýsinga. Hæfni nemanda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.

  5. Ábyrgð og mat á eigin námi. Hæfni nemanda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. 

 

bottom of page