Á Hæglætishátíð Djúpavogsskóla, sem haldin var í lok september var blásið til hugmyndasamkeppni um logo Djúpavogsskóla.
Allir á Djúpavogi vor hvattir til að taka þátt og lögð var áhersla á að aðstoða alla nemendur, sem áhuga höfðu, að skila inn hugmyndum/tillögum.
Höfundar þriggja efstu hugmynda um logo fyrir Djúpavogsskóla og hlutu viðurkenningar voru Fabiana Lif Gomez Ochoa í 6. bekk, Adrianna Lena Marszalek í 9. bekk og Freydís Rán Jónsdóttir í 10. Bekk. Það var Ásdís Elísa Jónsdóttir, systir Freydísar sem tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.
Að auki valdi matsnefnd fjórðu tillöguna sem einnig verður lögð til grundvallar í lokahönnun.
Við óskum þeim stúlkum innilega til hamingju með frábærar hugmyndir og viðurkenningar.
Í vinning hlýtur hver og ein þeirra; Gjafabréf frá Hafið Bistro, Gjafabréf frá Löngubúð, Gjafabréf frá Vök Baths og Gjafabréf frá Skógarböðin.
Við þökkum Hafinu Bistro, Löngubúð, Vök og Skógarböðunum kærlega fyrir stuðninginn.
Hildur Björk listkennari hélt utan um hugmyndasamkeppnina, tók á móti hugmyndum og var eina manneskjan í öllum heiminum sem hafði vitneskju um höfunda hverrar hugmyndar.
Í matsnefnd voru tilnefnd: Þór Vigfússon, sýningarstjóri Ars Longa, Pálmi Einarsson, hönnuður, Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra, Gréta Mjöll Samúelsdóttir, frumkvöðull og þúsundþjalasmiður, Þuríður Elísa Harðardóttir, áhugaljósmyndari og Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, verkefnastjóri. Hver fulltrúi í matsnefnd valdi þrjár áhugaverðustu hugmyndirnar og lagði inn á samráðsfund matsnefndar. Hildur Björk listkennari og Þórdís Sævars skólastjóri sem hafði umsjón með framkvæmd tóku ekki þátt í kosningum eða störfum matsnefndar.
Sendar voru inn 42 hugmyndir, flestar innsendar af nemendum.
Allar hugmyndir voru númeraðar og hengdar upp á vegg fyrir starfsmannakosningu, þar sem hver starfsmaður var beðinn að setja þrjú númer á blað. Byrjað var á starfsmannakosningu svo nemendur hefðu ekki tækifæri til að láta starfsfólk vita hver ætti hvaða hugmynd.
Daginn eftir var samskonar kosning haldin fyrir nemendur, þar sem kennarar fóru með sína bekkjarhópa að skoða hugmyndavegginn og nemendur skráðu númer á sínum uppáhalds hugmyndum á þar til gerða kosningamiða.
Einnig tóku hollvinir skólans, sem kíktu við í kaffi, þátt í kosningum.
Niðurstöður kosninga voru að atkvæði dreifðust nokkuð jafnt og á mjög margar hugmyndir.
Niðurstöður kosninga starfsfólks voru að 25 myndir af 42 hlutu kosningu og þær efstu nokkuð jafna kosningu.
Niðurstöður kosninga nemenda voru að 37 myndir af 42 hlutu kosningu og þær efstu nokkuð jafna kosningu.
Þrjár efstu hugmyndir úr hvorri kosningu, starfsfólks og nemenda, voru lagðar inn á samráðsfund matsnefndar.
Lokaniðurstöður matsefndar eftir samráðsfund voru vinningshafarnir þrír, og að auki fjórða innsenda tillagan sem var jöfn að stigum og talin með í niðurstöðum matsnefndar.
Þessar þrjár vinnings-tillögur og að auki sú fjórða sem matsnefnd taldi með, verða því lagðar til grundvallar fyrir vinnu hönnunarteymis sem leggur lokahönd á logo Djúpavogsskóla.
Hönnunarteymi Djúpavogsskóla- logosins skipa: Pálmi Einarsson, hönnuður og frumkvöðull, Þór Vigfússon, leikmyndasmiður og sýningarstjóri og Hildur Björk Þorsteinsdóttir, listkennari og hönnuður.
![](https://static.wixstatic.com/media/ea0373_1bb9444d11694cfe8707d83bc9908b65~mv2.jpg/v1/fill/w_980,h_733,al_c,q_85,usm_0.66_1.00_0.01,enc_auto/ea0373_1bb9444d11694cfe8707d83bc9908b65~mv2.jpg)
Comments