Í tilefni af Degi stærðfræðinnar á þriðjudag skipulögðu stærðfræðikennarar Djúpavogsskóla fjölbreyttar stærðfræðistöðvar sem sjá má á svipmyndum.
Stærðfræðistöðvar á yngsta stigi fjölluðu um klukkuna, mismun talna og hundruð, tugi og einingar.
Á miðstigi var lögð áhersla á mismunandi leiðir að niðurstöðu og hvernig nemendur hafa mismunandi nálganir í sínum útreikningum og lausnum. Einnig bauð miðstig upp á ,,margföldunar og deilingar – hús“ á eina stærðfræðistöð eftir hádegi.
Á unglingastigi var unnið á stærðfræðistöðvum um tölfræði, algebru og rökhugsun og samræður auk þess sem var boðið upp á fjölbreyttar stærðfræðistöðvar í tengslum við talnarunur, stjörnufræði, Gullinsnið og eðlisfræði.
Einnig voru plánetumódel (í réttum stærðarhlutföllum miðað við að sólin væri 5 m í þvermál) sem nemendur á unglingastigi hafa unnið í stærðfræði- og listatímum hengd upp í tilefni dagsins og því hægt að skoða sólkerfið, læra að þekkja pláneturnar og sjá stærðarmismuninn á plánetum innra og ytra sólkerfis.
Í vetur höfum við í Djúpavogsskóla verið að innleiða Skapandi stærðfræði með Dr. Ósk Dagsdóttur, sérfræðing í stærðfræðimenntun, ráðgjafa og kennara við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar höfum viðskoðað áhugaverðar nálganir í innlögnum og kennslufræði sem er einnig gott innlegg í aðra kennslu.
Í Skapandi stærðfræði höfum við lagt áherslu á fjölbreytta kennsluhætti, að efla skilning á samhengi stærðfræði við daglegt líf og störf og þá einnig önnur námsfög, að efla rökhugsun og samræður, lausnaleit, uppgötvunarnám og samvinnu auk þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að nemendur hafa mismunandi nálganir og fara mismunandi leiðir til niðurstöðu.
Comments