Eins og öllum er kunnugt greindist COVID-19 smit hjá skipverjum á línuskipinu Valdimar GK sem var á Djúpavogi í síðustu viku. Um leið og smit greindist um borð fór smitrakning í gang og í kjölfarið fóru tveir einstaklingar á staðnum í sóttkví. Aðgerðastjórn á Austurlandi hvatti af þessum sökum íbúa á Djúpavogi til að gæta sérstaklega að smitvörnum næstu viku og vera vakandi fyrir einkennum.
Óhætt er að taka undir með aðgerðastjórninni og hvetja íbúa til að taka höndum saman um að virða fjarlægðarmörk, gæta að handþvotti og að nota spritt samkvæmt ráðleggingum.
Viðbrögð sveitarfélagsins við þessu tímabundna ástandi er að Tryggvabúð var lokað í gær og opnar ekki aftur fyrr en miðvikudaginn 7. október. Salurinn í íþróttahúsinu verður jafnframt lokaður fyrir almenna notkun til sama tíma. Íþróttatímar og Neistatímar verða með hefðbundnum hætti. Grunn- og leikskólinn munu áfram fylgja ströngum reglum um hreinlæti og umgengni sem verið hafa í gildi undanfarnar vikur.
Líkt og aðgerðastjórn nefnir bendir tíminn sem þegar hefur liðið án smits til þess að ekkert smit hafi borist í land. Það er þó ekkert öruggt í þeim efnum og mikilvægt að íbúar sýni árvekni næstu daga, standi saman og treysti varnirnar.
Við erum öll Almannavarnir!
Sveitarstjóri
Comments