Nemendur 3. og 9. bekkjar í grunnskólum Múlaþings er boðið að taka þátt í Náttúruskólanum, en stofnandi og skólastjóri Náttúruskólans er Hildur Bergsdóttir. Ásamt Hildi eru þar frábærir aðstoðarkennarar, þeir Máni, Unnar og Rökkvi og ekki má gleyma yndislega Míló.
Það er Fræðslusvið Múlaþings sem býður upp á þetta efnilega samstarf sem er frábært framtak.
Nemendur 9. bekkjar fóru í dagsferð í Náttúruskólann í Hallormsstað og hittu þar 9. bekkinga í Seyðisfjarðarskóla. Þar lærðu nemendur margt nýtilegt þegar kemur að útivist og vorum við svo heppin að Öxi var opin.
Nemendur fræddust um notkun áttavita og gps-staðsetningarbúnaðs, björgun og aðhlynningu í óbyggðum, að nota línu og binda hnúta, að súrra (binda saman tréskýli) auk þess sem þeir nemendur sem vildu fengu að prufa klettasig.
Í lokin var boðið upp á hádegisveislu þar sem allir hjálpuðust að við að kveikja upp eld með gneistagjöfum og náttúrulegu efni, og þar sem allt var eldað yfir opnum eldi: tortillur, eldbökuð ,,eðla" og í eftirétt bananar og vínber í súkkulaði-foundue.
Það voru útivistar-fróðari og sáttir nemendur og kennarar sem komu heim frá Náttúruskólanum í Hallormsstað.
Áætlað er að nemendur 3 bekkjar fari í byrjun nóvember í Blöndalsbúð og hitti þar 3. bekkinga Seyðisfjarðarskóla, í samvinnu við veður og vinda.
Við þökkum Hildi, Mána, Unnari, Rökkva og svo ljúfa Míló kærlega fyrir frábæran dag.
Náttúruskólann má finna á heimasíðunni: https://natturuskolinn.wordpress.com/
Náttúruskólinn á facebook: https://www.facebook.com/natturuskolinn/
Náttúruskólinn á Instagram: https://www.instagram.com/natturuskolinn/

Σχόλια