Það er með miklu stolti sem við segjum frá því að Foreldraverðlaunin fara þetta árið til Foreldrafélags Djúpavogsskóla. Það var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti verðlaunin við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík en þau voru nú afhent í 25. sinn.
Foreldrafélag Djúpavogsskóla fékk haustið 2018 húsnæði hjá Djúpavogshreppi og setti á laggirnar nytjamarkaðinn Notó, en enginn nytjamarkaður eða móttaka heilla hluta var fyrir á Djúpavogi. Rekstrarformið er þannig að Notó er opið einu sinni í viku og sjá nemendur skólans um að raða, verðleggja og afgreiða. Einn bekkur sér um hverja opnun undir leiðsögn eins til tveggja foreldra. Innkoma Notó rennur svo beint til barnanna og meðal þess sem fjármagnað hefur verið eru útirólur, leikrit, fyrirlestrar og stutt ferðalög fyrir nemendur. Þá hefur foreldrafélagið boðið upp á fjölbreyttar smiðjur, örnámskeið og fyrirlestra í nokkur ár. Markmiðið er að bjóða upp á einn til tvo viðburði á Smiðjuhelgi frá utanaðkomandi aðila og virkja foreldra og mannauð Djúpavogshrepps. Hefur það tekist með eindæmum vel og frábær stemning skapast meðal barna og foreldra og er Smiðjuhelgin orðin fastur viðburður í félagslífi skólans.
Verðlaunin eru mikill heiður og hvatning fyrir okkar frábæra Foreldrafélag.
Σχόλια