top of page
Saga Djúpavogsskóla

Talið er að almenn barnakennsla hafi hafist á Djúpavogi haustið 1888 en það var ekki fyrr en um áramótið 1914-1915 sem kennsla hófst í Gamla skólanum en hann stóð á melnum milli

Hlíðarendakletts og gömlu Ekru, þar sem nú stendur hús Landsbankans.  Í þessu húsi var kennt til 1953 – 1954 en um þau áramót var flutt í nýtt skólahúsnæði við rætur Bóndavörðukletta þar sem skólinn stendur enn, þó byggt hafi verið við hann tvisvar sinnum.

Frá árunum 1954 – 1985 var skólahúsið einnig notað til ýmiss konar félagsstarfsemi. 

Fljótlega fór þó að þrengja að nemendum og starfsfólki í skólanum og haustið 1977 var ný álma tekin í notkun, norðan við elsta hlutann og 1982 var önnur viðbygging vígð, syðra megin og hýsti hún í upphafi héraðs- og skólabókasafnið.

Heimavist var byggð við skólann og var hún tekin í notkun 1987.  Í henni dvöldu nemendur úr dreifbýli (12-16 ára) en aðrir skólar voru reknir í sveitarfélaginu, einn í Hamraborg og annar á Kerhömrum.  Skólanum í Hamraborg var lokað 1993 og á Kerhömrum 1996.  Síðan þá hefur nemendum úr dreifbýli verið keyrt í skólann að morgni og heim seinni part dags.

Nýtt íþróttahús var tekið í notkun 1995 og ný innisundlaug vígð haustið 2003.  Segja má að aðstaða til íþróttaiðkunar sé mjög góð en enn á ný herja þrengslin á aðrar námsgreinar, sérstaklega list- og verkgreinar.  Heimilisfræði og textílmennt eru kennd í húsi í eigu Hótels Framtíðar, sem ber nafnið Helgafell.  Það var upphaflega byggt sem Dvalarheimili fyrir eldri borgara.  Þeirri starfsemi var hætt og hefur skólinn leigt aðstöðu af Hótelinu nú um nokkur ár.  Myndmenntastofa í skólanum er engin heldur er samnýting á bekkjarstofu og myndmenntastofu nauðsynleg og smíðakennsla fer fram í litlu timburhúsi austan við aðalbyggingu skólans.

Haustið 2019 hófst vinna við að reisa viðbyggingu sem hýsa á list-og verkgreina kennslu í skólanum. Stefnt er að því að sú bygging verið tekin í notkun haustið 2020. Með nýrri viðbyggingu fá skapandi greinar aukið rými og betri aðstöðu auk þess verður hægt að flytja smíðakennslu úr núverandi aðstöðu. Einnig verður hægt að nýta hluta viðbyggingarinnar til þess að kenna hópum í opnu rými aðrar greinar en listgreinar. Vonir eru bundnar til þess að hægt verði að efla þverfaglega kennslu með tilkomu nýja rýmisins. 

Í ljósi þess að skortur er m.a. á almennum kennslustofum, sérkennslurými og fundaraðstöðu er það stefna fræðsluefndar og sveitarstjórnar í samvinnu við skólasamfélagið að hrinda af stað vinnu við næsta kafla í viðbyggingu skólans. 

 

ingimarsveins_safn3__7_.jpg
ingimar_gamlar__16_.jpg
ingimarsveins_safn3__6_.jpg
Viðbygging.jpg
bottom of page