Samstarf við leikskóla og framhaldsskóla
Tilgangurinn með samstarfi milli skólastiga er að skapa samfellu í námi barna, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu náms. Mikilvægt er til að ná þessum markmiðum að treysta gagnkvæma þekkingu og skilning kennara á þessum tveimur skólastigum á starfi og starfsaðstæðum hvers annars. Markmiðið er að stuðla að vellíðan og öryggi barna og foreldra þegar börnin flytjast á milli skólastiga.
Til þess að ná þessu markmiði er mikilvægt að samræmi sé milli þess sem börn vinna með eða gera í leikskólanum og þess sem unnið er að í grunnskólanum. Ekki er stefnt að því að allt eigi að vera eins á skólastigunum heldur að mismunurinn sé innan þeirra marka að hann valdi ekki óöryggi og kvíða hjá börnum og foreldrum þeirra.
Í Aðalnámskrám gunn- og leikskóla segir:
Ef flutningur barna úr leikskóla í grunnskóla á að vera farsæll þarf að undirbúa hann vel fyrir og eftir lok leikskólanáms. Leikskólabörn eiga að fá tækifæri til að kynnast umhverfi og starfi grunnskóla meðan þau eru enn í leikskóla og viðhalda góðum tengslum við leikskólann eftir að grunnskólanám hefst.
Á öðrum stað stendur:
Tengsl leikskóla og grunnskóla er samstarfsverkefni barna, foreldra, kennara og annars starfsfólks beggja skólastiga, þar sem barnið, velferð þess, þroski og menntun eru í brennidepli. Kennarar á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hver annars, leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra.
Samstarfsáætlun Djúpavogsskóla og leikskólans Bjarkatúns - Brúum bilið - byggir á þessum áherslum. Til að efla samfelluna má nýta enn frekar þá hugmyndafræði sem liggur að baki einstaklingsmiðuðum starfsháttum. Í samstarfsáætluninni er gert ráð fyrir nemenda- og kennaraheimsóknum, stjórnendafundum, kynningarfundum og námskeiðum fyrir foreldra og námskeiðum fyrir starfsfólk skólanna.
Mjög gott samstarf er milli grunn- og leikskólans. Á hverju hausti áður en grunnskólinn hefst hittast deildarstjóri elstu nemenda, stjórnendur í grunnskólanum og umsjónarkennari 1. bekkjar á skilafundi. Þar er farið yfir nemendahópinn sem er að hefja nám í grunnskólanum. Stuðningsfulltrúar og aðrir sem eiga erindi á þann fund sitja hann líka þegar þurfa þykir. Samstarfsáætlun tekur mið af nemendahópnum hverju sinni og er aðlöguð að hausti ár hvert.
Samstarf að loknum grunnskóla
Í skólanum er gott samstarf við Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands, en þeir, ásamt Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu eru heimaframhaldsskólar okkar nemenda. Nemendum 10. bekkjar (og stundum 9. bekkjar) er boðið í heimsóknir í ME og VA að vori og höfum við þegið þau heimboð. Ekki hafa verið heimboð, né kynningar frá FAS en nemendum er sagt frá þeim skóla þegar verið er að ræða framhaldsnám.
Nokkuð hefur verið um að nemendur sæki nám til Akureyrar og Reykjavíkur.
Sérkennari og eða umsjónarkennari unglingastigs fylgja nemendum vel eftir. Haft er samband við verðandi framhaldsskóla og námsráðgjafar þar upplýstir um þá nemendur sem við sendum til þeirra.