logó.JPG
Skólastefna og framtíðarsýn

Til ársins 2023 mun starfsfólk skólans vinna að því að láta framtíðarsýn skólans verða að veruleika.

Djúpavogsskóli er virkur og skapandi skóli sem ætlar að verða:

  • Þekktur fyrir framsækna og faglega kennslu

  • Þekktur fyrir áherslur á hæglæti/núvitund/velferðarkennslu

  • Þekktur fyrir að vinna eftir hugmyndafræði Cittáslow

  • Þekktur fyrir ánægju nemenda, foreldra og starfsfólks

  • Þekktur fyrir virkni og nýsköpun

  • Þekktur fyrir samstarf og tengingu við atvinnulíf og menningarstarf

Skólastefna sveitarfélagsins gildir frá 2019–2023 og fram að þeim tíma mun starfsfólk Djúpavogsskóla vinna að því að byggja upp framsækna og faglega kennslu í skólanum. Leggja áherslu á velferðarkennslu og núvitund. Vinna eftir hugmyndafræði Cittáslow og festa hana í sessi með því að flétta viðmiðum Cittáslow inn í kennslu skólans og vinna þvert á greinar. Lögð verður áhersla á á nýsköpun og virkni nemenda, starfsfólks og foreldra og er það gert með því að efla tengslin við atvinnu- og menningarstarf í sveitarfélaginu. 

Djúpavogsskóli leggur metnað sinn í að vinna vel með foreldrum og nemendum  með það að marki að sú samvinna leiði til ánægju allra sem mynda skólasamfélagið. 

Djúpavogsskóli á að vera eftirsóttur vinnustaður og stefnt er að því að í skólanum starfi lausnamiðaðir einstaklingar sem styðjast við fjölbreyttar leiðir í kennslu og nýta sér nýjustu tækni í vinnu sinni.

 

Cittáslow

Í Djúpavogsskóla er unnið eftir hugmyndafræði Cittaslow en sveitarfélagið Djúpavogshreppur varð aðili að hreyfingunni 2013. Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar eru að auka lífsgæði og ánægju fólks og leggja áherslu á sérstöðu, fjölbreytni og virðingu. Leiðir að þessum markmiðum snúast t.d. um að sporna við einsleitni og að vernda náttúru og menningarminjar. Þá þykir mikilvægt að fegra og bæta umhverfið, nota nýjustu tækni í þágu samfélagsins, efla staðbundna menningu og framleiðslu. Þessum þáttum skal vinna að en um leið sporna við hraða, auka öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eiga vel við þau viðmið sem sett eru í faggreinanámsskrá skólans í tengslum við Cittáslow. 

 

Í skólastarfinu endurspeglast Cittáslow hugmyndafræðin í öllu starfi skólans. Viðmiðum hæglætishreyfingarinnar er fléttað inn í námsmarkmið og skipulag náms á öllum stigum. Einnig er unnið eftir hugmyndafræðinni í þverfaglegum verkefnum sem tengd eru hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Einnig skal náms- og starfsumhverfi í Djúpavogsskóla taka mið af hugmyndafræði Cittáslow og skal það endurspeglast í hvetjandi námsumhverfi, hæglæti og núvitund í skólastarfinu.

Skóli á grænni grein

Djúpavogsskóli er skóli á grænni grein (Eco-School) sem er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að mennta nemendur í sjálfbærni og umhverfisvernd. Áhersla er á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. Stefnt er að því að fá grænfánann skólaárið 2021-2022.

Uppeldi til ábyrgðar

Í Djúpavogsskóla skiptir vellíðan nemenda okkur mestu máli.  Skólinn á að vera öruggt skjól, þar sem börn eiga að geta stundað nám og þar á þeim að líða vel.  Nemendur eiga að fá tækifæri til að þroskast og dafna og þeir eiga að fá tækifæri til að afla sér þekkingar, hæfni og leikni.  Skólinn vill styrkja sjálfstraust nemenda og auka þeim víðsýni og samstarfshæfni. Þannig geta þeir á farsælan hátt tekist á við lífið í síbreytilegu samfélagi nútímans og lagt sitt af mörkum til að bæta það. 

Unnið er með uppeldi til ábyrgðar í öllu skólastarfinu út frá verkáætlun fyrir alla árganga skólans á hverju skólaári. 

Heilsueflandi grunnskóli 

Samkvæmt Aðalnámsskrá grunnskóla (2011) er Heilbrigði og velferð nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Djúpavogsskóla vinnur með þennan grunnþátt í öllu sínu starfi. Þátttaka í Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skólann í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólaárið 2020-2021 verður mótuð heilsustefna þar sem horft er á  skólasamfélagið í heild.

Djúpavogsskóli

djupavogsskoli@mulathing.is

Varða 6

765 Djúpivogur

Sími 470-8710