,,Álfasöngur" Ríkarðs Jónssonar og ,,Þrettándakvöld" Finns Jónssonar
- Vefstjóri
- Jan 5
- 1 min read
Það er alltaf svo gaman að sjá öll hress og kát að nýju eftir gott jólafrí.
Á móti okkur tekur hinn skemmtilegi þrettándi.
Í tilefni þess má syngja ,,Álfasöng" Ríkarðs Jónssonar (1888-1977), en á þrettándanum, 2023, sungu nemendur Djúpavogsskóla vísurnar í Samveru skólans, í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því þær voru fyrst sungnar á þrettándabrennu á Djúpavogi, árið 1923.
Í myndskreytingu fylgir mynd af teikningu Finns Jónssonar (1892 - 1993), bróður Ríkarðs, ,,Þrettándakvöld" þar sem greina má huldufókið/álfana á leið til messu í Álfakirkjunni / Rakkabergi.
Allar vísurnar og þrenns konar viðlög má finna í meðfylgjandi myndefni, en hér fylgja fyrstu vísurnar sem sungnar voru við íslenska þjóðlagið ,,Álfadans" eða betur þekkt sem ,,Mánninn hátt á himni skín":
Búlandstindur brúnahvass brýnir í skýjum nöf,
eins og gamall gylfi gnæfir ´ann yfir höf.
Tökum sprett
klett af klett,
kyndum bál á ís,
norðurljósin prýða vora paradís.
Nú er bjart um Búlandstind, blika norðurljós:
út úr hömrum halda, huldusveinn og drós.
Tökum sprett
klett af klett,
kyndum bál á ís,
norðurljósin prýða vora paradís.
Dýrðarmyndir, drottinn minn, dregur þú á fjöll,
ó hve undrafögur er þín konungshöll.
Tökum sprett,
klett af klett,
kyndum bál á ís,
norðurljósin prýða vora paradís.









Comments