Stefna gegn einelti
Stefna gegn einelti er mótuð til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun í skólanum, til að styrkja jákvæðan skólabrag, tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar.
Öryggis og slysavarnaráætlun
Skólinn er griðastaður barnanna og mikil ábyrgð hvílir á starfsfólki að hlúa að börnum og veita þeim öryggi í daglegu starfi. Velferð allra er sameiginlegt verkefni og það er skólanum keppikefli að hver nemandi njóti bernsku sinnar og eigi góðar minningar úr skóla.
Þegar fjallað er um velferð nemenda er horft til þriggja þátta:
-
Félagslegs öryggis nemenda og að þeir séu metnir út frá eigin verðleikum
-
Tilfinningalegs öryggis nemenda sem finna væntumþykju annarra.
-
Trausts þar sem nemendur átta sig á að þeir geti treyst þeim sem eru að mennta þá
Komið er til móts við ofangreinda þætti með ýmsum hætti í skólastarfinu og endurspeglast þeir í skólanámskrá skólans. Unnið er að velferðaráætlun og öryggis- og slysavarnir skólans eru mótaðar samkvæmt Öryggishandbók grunnskóla.
Grunnþættir menntunar
Í umfjöllun um menntun og nám nemenda er hæfni lykilhugtak. Hæfni nemanda hvílir að mestu á leikni hans og þekkingu. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.
Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.
Við allt skipulag skólastarfs og kennslu í Djúpavogsskóla ber að leggja þessi atriði til grundvallar. Það gerir kröfur um að kennari leggi sig fram um að kynnast hverjum þeim nemanda sem hann kennir, meti stöðu hans í námi og hafi bæði nemanda og foreldra hans með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Leggja skal áherslu á að foreldrar fylgist með námsframvindu barna sinna.
Í Djúpavogsskóla er grunnþáttunum gerð skil í námsmarkmiðum fyrir allar námsgreinar í öllum árgöngum. Námsmarkmiðin eru sett fram í greinanámsskrá skólans.
Læsi er grunnþáttur sem endurspeglast í öllum greinum skólans með einum eða öðrum hætti. Byrjendalæsi er aðferð sem notuð er á yngsta stigi og Orð af orði þegar lengra er komið í námi. Áhersla er á meginmarkmið læsis samkvæmt aðalnámskrá, að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.
Fræðsla um lýðræði og mannréttindi fer að mestu fram í gegnum samfélagsgreinar í Djúpavogsskóla en engu að síður endurspeglar skólastarfið lýðræðislega hugsun og virðingu fyrir mannréttindu. Unnið er með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og lýðræðisleg vinna fer m.a. fram í gegnum bekkjarsáttmála á öllum stigum.
Grunnþátturinn sjálfbærni endurspeglast í greinanámskrá skólans en einnig í gegnum Grænfánavinnu og í anda Cittáslow að fegra og bæta umhverfið, nota nýjustu tækni í þágu samfélagsins, Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eiga vel við þau viðmið sem sett eru í greinanámskrá skólans í tengslum við Cittáslow.
Jafnrétti birtist gegnum gangandi í skólastarfinu í þeim hugmyndum að allir eigi jafnan rétt til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Jafnréttisfræðsla fer fram í gegnum samfélagsgreinar og skipulagða fræðslu í tengslum við jafnréttisáætlun skólans.
Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Í Djúpavogsskóla er stuðlað markvisst að velferð og vellíðan nemenda og starfsfólks með því að skipuleggja skólastarfið með það í huga að draga úr streitu, auka meðvitund um heilbrigða lífshætti, vinna með forvarnir og leggja áherslu á styrkleika nemenda í anda jákvæðu sálfræðinnar.
Skapandi vinna fer ekki eingöngu fram í list- og verkgreinum. Nemendur í Djúpavogsskóla fá hvatningu til þess að skapa sína þekkingu, prófa sig áfram og miðla nýjum hugmyndum. Lögð er áhersla á nýskapandi hugsun á sem breiðustum grunni í skólastarfinu.