top of page
Search

Ars Longa Dagur Djúpavogsskóla 2025

  • Vefstjóri
  • Sep 1
  • 2 min read

Updated: Sep 3

Fyrsta eiginlega skóladaginn, þriðjudaginn 26. ágúst var haldinn Ars Longa dagur Djúpavogsskóla 2025, sem er nú haldinn þriðja árið í röð.

Á þessum góða degi er frábært samstarf milli Ars Longa og Djúpavogsskóla, þar sem öllum nemendum Djúpavogsskóla, ásamt starfsfólki, er boðið á sérstaka nemendasýningu, þar sem umsjónarmaður safnsins, Þór Vigfússon, opnar safnið sérstaklega þennan dag fyrir nemendur Djúpavogsskóla.

Sýning sumarsins er falleg sýning og ber yfirskriftina ,,Undir lággróðrinum" / ,,The Undergrowth" sem vísar í tengingu manneskjunnar og náttúrunnar og hve mikils virði hún er. Eins og yfirskriftin ber með sér er lögð áhersla á lággróður, rætur, jarðveg og fleira áhugavert, hugvekjandi og innblásandi í sýningunni.

Það er aðstoðarskólastjóri í samvinnu við listkennara sem skipuleggja Ars Longa daginn, og leggja listkennarar áherslu á að vinna í kjölfarið með upplifun og innblástur nemenda af sýningunni.

Í ár var lögð áhersla á að leggja inn orðin ,,lággróður" og ,,ígrundun" í orðaforða nemenda og vinna áfram með þau í skólastarfinu. Orðið ,,lággróður" hefur t.d. skýra tengingu við útinám, grenndarnám, náttúrufræði og fleira. Orðið ,,ígrundun" er mikilvægt orð sem gott er að þekkja og skilja, en ,,ígrundun" má segja að sé fyribæri sem er samofið okkur að minna eða meira leyti dags daglega, og getur bæði verið einföld og flókin. Ígrundun er þegar leitast er við að skoða nánar, velta fyrir sér og dýpka skilning á einhverju umfjöllunarefni, og sem þýðir þá m.a. að ígrundun er mikilvægur þáttur í öllu námi. Mismunandi aðferðir fólks við að nálgast þekkingu hefur svo áhrif á hvernig og af hverju það ígrundar, hver niðurstaða ígrundunar er og hvernig fólk tjáir niðurstöðu ígrundunar sinnar.

Í Ars Longa tóku Þór Vigfússon, listamaður og umsjónarmaður safnsins, listkennarar og aðstoðarskólastjóri á móti nemendahópunum sem skoðuðu, spáðu og spekúleruðu í listaverkunum og skoðuðu útfrá eigin túlkun. Nemendur fengu myndræna sýningarskrá frá listkennurum, þar sem þau gátu ígrundað upplifun sína af hverju verki.


“Before a child speaks, it sings. Before they write, they paint. As soon as they stand, they dance. Art is the basis of human expression.”

PHYLICIA RASHAD

10. Bekkur á Ars Longa nemendasýningu Djúpavogsskóla 2025
10. Bekkur á Ars Longa nemendasýningu Djúpavogsskóla 2025
ree

 
 
 

Comments


bottom of page