Hugleiðsludagur Unga fólksins, 9. okt. 2025
- Vefstjóri
- Oct 7
- 2 min read
Sköpum friðarbylgju í hjörtum um allt land!
Markmið Hugleiðsludags unga fólksins er að sameina ungt fólk (2 - 18 ára) í 3 mínútna hugleiðslu í skólum hérlendis.
Með því er vakin athygli ungs fólks á hugleiðslu sem leið til að m.a. skapa innri frið, finna innri náttúrulega gleði, vinna úr tilfinningum, kvíða, streitu og vanlíðan hjá ungu fólki og þá efla velferð ungs fólks og gera þau að sterkari einstaklingum.
Hugleiðsluiðkun eykur vellíðan og getur fallið undir uppeldisstefnur eins og jákvæðan aga sem og Uppeldi til ábyrgðar. Einnig tengist hugleiðsluiðkun einum af grunnþáttum Aðalnámsskrá Grunnskóla, Heilbrigði og velferð, og eiga um leið samþættingu við aðra grunnþætti Aðalnámsskrár, eins og Sköpun og Jafnrétti.
Næsti Hugleiðsludagur unga fólksins verður haldinn í tíunda sinn, fimmtudaginn 9. október 2025, og er stefnt að 3 mínútna hugleiðslu samdægurs á þeim tíma sem hentar í heimastofum, sem er leidd af kennara eða með aðstoð myndbandsins hér meðfylgjandi.
Klukkan 10:30 er stefnt á sameiginlega hugleiðslutíma fyrir þau sem hentar og hafa hug á.
Nemendur Djúpavogsskóla gerðu kennslumyndbandið fyrir Hugleiðsludag unga fólksins, 2022, sem má sjá hér.
Kennslumyndbandið fyrir Hugleiðsludag ársins 2025, var gert í samstarfi við Ártúnsskóla.
Af hverju 9. október?
Merkisdagurinn 9. október er einnig afmælisdagur friðarsinnans John Lennon heitins og þá dagurinn sem Friðarsúlan var tendruð í Viðey fyrir til að leggja áherslu á frið í heiminum.
Í fyrra tóku 60 skólar þátt og um 5.000 börn hugleiddu og stefnir í samskonar fjölda í ár.
Leiðbeiningar fyrir 3. mínútna hugleiðslu, sem má nýta hvaða daga sem er.
1. Við leggjum lófa á bringu
2. Við öndum djúpt
3. Við lokum augunum
4. Við hugsum okkur frið í hjarta í 3 mínútur. Finnum okkar innri frið.
Kennslumyndbandið, sem er meðfygljandi, leiðir hugleiðsluna áfram, fyrir þá sem vilja nýta sér.
Hugleiðsla gefur ungu fólki gott veganesti inn í framtíðina um hvernig má auka vellíðan innan frá, auka hjartamiðun og sjálfsmildi, minnka streitu, kvíða, áhyggjur, skapa sinn innri frið og efla almennt vellíðan og andlegt heilbrigði.
Aðstandendur Hugleiðsludags Unga fólksins er ,,Jógahjarta", Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir og Inga Margrét Jónsdóttir auk fleiri sjálfboðaliða.







Comments