Vinadagur Djúpavogsskóla er árlega 8. nóvember sem nú bar upp á föstudegi, og er einnig hinn árlegi ,,Dagur gegn einelti".
Í Djúpavogsskóla eru frábærir nemendur og frábært starfsfólk sem eru góðir vinir og bera umhyggju fyrir hvert öðru.
Á Vinadegi Djúpavogsskóla höfum við tækifæri til að njóta þess enn betur þegar vinatengd verkefni eru samþætt kennslu og skóladeginum með ýmsum skemmtilegum hætti.
Friðarganga með leikskólabörnum.
Á Vinadeginum tóku grunnskólinn og leikskólinn höndum saman í hinni árlegu friðargöngu og tóku með sér vasaljós og rafkerti til að lýsa leiðina. Lagt var af stað klukkan 9:00, þar sem nemendur grunnskólans gengu í leikskólann og sóttu vini sína á leikskólanum og saman röltu allir í friði og gleði á Bjargstún þar sem var sunginn vinasöngur, keðjusöngur, og hvar allir stilltu sér upp í fallegt hjarta sem var tekið á mynd. Jón Einar sá um myndatöku í þessum skemmtilega viðburði.
Á eftir var öllum boðið upp á heitt úti-súkkulaði og kveikt bál á úti-eldhúsi foreldrafélagsins.
Foreldrar / aðstandendur, afar, ömmur, frændur og frænkur, vinir og félagar voru hvött til að koma og vera með og grípa með sér vasaljós eða rafkerti og þökkum við öllum þeim sem komu og tóku þátt.
Allir voru sammála um að hittast oftar og eiga glaða stund saman.
Comentarios